
Komin út: Bók um skáldkonuna Drífu Viðar
Í bókinni er að finna úrval úr myndlist Drífu Viðar, ágrip úr áður óbirtum bréfum sem eftir hana liggja og stuttar fræðigreinar um myndlist Drífu, skáldverk hennar, listgagnrýni hennar, hugsjónir og baráttumál. Bókin verður þarft framlag til íslenskrar listasögu. Hægt er að panta hana hjá okkur.

Brim Hvít Sýn
Brim Hvít Sýn fjallar um myndlist Jónu Hlífar Halldórsdóttur, innsetningar og textaverk, og inniheldur úrval ljósmynda af verkum hennar, um 100 myndir, auk texta og upplýsinga um sýningar. Í bókinni eru jafnframt greinar og umfjöllun um verk Jónu Hlífar.
Um okkur
Ástríki útgáfa
Útgáfufyrirtækið Ástríki ehf. var stofnað árið 2010 af Auði Aðalsteinsdóttur og Ástu Gísladóttur. Fyrst um sinn sá það eingöngu um að gefa út menningartímaritið Spássíuna en hefur frá árinu 2012 gefið út nýjar þýðingar á bókunum í bókaflokknum um Önnu í Grænuhlíð eftir kanadísku skáldkonuna L. M. Montgomery ásamt bókum um íslenska myndlist.

eftir Jónu Hlíf Halldórsdóttur 2021.

á Prins Eðvarseyju í Kanada

Ástríki útgáfa er með bókina Þvílíkar ófreskjur eftir Auði Aðalsteinsdóttur til sölu á tilboðsverði. Útgefandi Sæmundur.

Bókaflokkurinn um Önnu í Grænuhlíð
Bók 1 – Anna í Grænuhlíð
Anna Shirley er ellefu ára munaðarlaus stúlka sem fyrir tilviljun eignast heimili hjá eldri systkinum, Marillu og Matthíasi í Grænuhlíð, og lífgar heldur betur upp á tilveruna þar á bæ. Stúlkan er hvatvís og uppátækjasöm, en einnig greind, útsjónarsöm og ástúðleg. Leiðarvísir hennar í gegnum lífið er ímyndunaraflið sem hleypur oftar en ekki með hana í gönur.
Bók 2 – Anna í Avonlea
Anna Shirley er á sautjánda ári og starfar sem kennslukona í heimabæ sínum, Avonlea. Hvatvísi Önnu, forvitni og bjartsýni setja mark sitt á bæjarlífið á meðan hún sjálf berst við ódælar kýr, óknyttadrengi og orðljóta páfagauka, auk þess að skipta sér af ástarmálum annarra. Vináttan og fjölskylduböndin eru henni eftir sem áður mikilvæg og þar skiptast á skin og skúrir.
Bók 3 – Anna frá eynni
Anna Shirley hefur kvatt Grænuhlíð á Prins Eðvarðs-eyju og hafið nám við Redmond háskóla á meginlandi Kanada. Þar kynnist hún nýjum vinum og býr sér heimili ásamt þeim á hinum notalegu Petrustöðum. Ástarmálin eru ungu háskólafólki ofarlega í huga og skóli lífsins reynist ekki síður mikilvægur. Anna þarf að kljást við óæskilega vonbiðla, leysa úr ástarflækjum annarra og reyna að finna hvað býr í hennar eigin hjarta.
Bók 4 – Anna í Asparblæ
Anna Shirley er loksins trúlofuð Gilbert en enn eru þrjú ár í giftingu og nægur tími til að kynnast nýjum vinum og lenda í ævintýrum. Hún ræður sig sem skólastjóra í menntaskólanum í Summerside og þarf þar að takast á við erfiða nemendur, samkennara og bæjarpólitík. Þótt vandræðin elti hana á röndum er Anna úrræðagóð og nýja heimilið í Asparblæ hjá hinum sérvitru eldri systrum, Kötu og Kattý, sannkölluð vin í eyðimörk.
Bók 5 – Draumahús Önnu
Anna Shirley og Gilbert Blythe giftast loks, eftir langt og stormasamt tilhugalíf og langa en kyrrlátari trúlofun, og hreiðra um sig í litlu húsi nálægt smábænum Maríuvogi á Prins Eðvarðs-eyju. Þar eignast þau sín fyrstu börn og kynnast nýju og áhugaverðu fólki, upplifa gleðistundir en einnig mikla sorg.
Bók 6 – Anna á Arinhæð
Anna, Gilbert og börn þeirra hafa komið sér notalega fyrir í húsi sem þau kalla Arinhæð rétt við þorpið Maríuvog. Börnin eru fimm í upphafi sögunnar en fer fjölgandi. Það er mikið að gera á stóru heimili og það gengur á ýmsu eftir því sem börnin vaxa, þroskast og kynnast heiminum. Erfiðir ættingjar og draugar fortíðar reyna einnig á hjónaband Önnu og Gilberts
Bók 7 – Regnbogalaut
Regnbogalaut er ævintýraheimur barna Önnu og Gilberts. Þegar barnmörg fjölskylda sest að á prestssetrinu í Maríulundi færist fjör í leikinn. Krakkarnir leysa úr málum eftir eigin höfði, oft á hátt sem fullorðnum hefði aldrei hugkvæmst.
Bók 8 – Rilla á Arinhæð
Börn Önnu og Gilberts eru næstum fullorðin, fyrir utan hina fallegu og skapmiklu Rillu Blythe. Þegar sagan hefst er Rilla tæplega fimmtán ára og getur ekki hugsað um annað en að fara á sinn fyrsta dansleik og fá sinn fyrsta koss frá hinum myndarlega Kenneth Ford. En ófyrirséðar áskoranir koma heimi hennar í uppnám og reyna á hugrekki hennar. Fyrri heimsstyrjöldin er skollin á. Bræður hennar ganga í herinn og hún kemur dag einn heim með munaðarlausan nýbura í súpuskál.
